• Description
  • Date
  • Info
Frá drengjakollum til #MeToo: Líkamsbyltingar í eina öld
Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir er fjórði fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Frá drengjakollum til #MeToo: Líkamsbyltingar í eina öld“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 18. október, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Í fyrirlestrinum, sem er tvískiptur, verður byrjað á því að setja #MeToo-byltinguna í sögulegt samhengi, þar sem hún er skoðuð sem hlekkur í langri keðju átaka og umróts þar sem kvenlíkaminn er í forgrunni. Þær líkamsbyltingar, sem horft verður til eru innreið drengjakollsins á þriðja áratugnum þegar snoðkollurinn varð táknmynd aukins sjálfræðis kvenna. Á áttunda áratugnum settu harðvítug átök um fóstureyðingar, gagnrýni á þröngt skilgreind fegurðarviðmið og (meintar) brjóstahaldarabrennur kvenlíkamann aftur í fókus. Loks verður sjónum beint að keðju líkamsbyltinga á síðustu árum sem allar hafa, með einum eða öðrum hætti, snúist um kynfrelsi kvenna og lausn undan áþján kynferðisofbeldis. Síðasti hlekkurinn í þeirri keðju er #MeToo-byltingin. Skoðað verður hvernig hún birtist hér á landi með því að rýna í þær rúmlega 800 frásagnir kvenna sem birst hafa en þær spanna allt frá óviðeigandi bröndurum, niðurlægjandi athugasemdum, um útlit eða getu, og þöggun yfir í kynferðislega áreitni, ofbeldi og nauðgun. Við lesturinn birtust ákveðin þemu eða þrástef sem ítrekað komu upp, þvert á hópa og stéttir. Í erindinu verða þessi þrástef nefnd á nafn og þeim lýst með völdum dæmum.

Þorgerður er sagn- og kynjafræðingur og sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni. Hún lauk doktorsprófi í kynjafræðum frá Háskóla Íslands árið 2012. Hún hefur unnið að fjölbreyttum rannsóknarverkefnum, sem flest tengjast jafnrétti í víðum skilningi, kynjaðri menningu og kynjaímyndum á 20. og 21. öld. Fyrirlesturinn er hluti af rannsóknarverkefninu „Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915–2015“, sem styrkt er af Rannís. Að rannsókninni vinna, auk fyrirlesara, sagnfræðingarnir Erla Hulda Halldórsdóttir og Ragnheiður Kristjánsdóttir. Verkefnið hefur einnig hlotið styrk frá EDDU öndvegissetri við Háskóla Íslands.

Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku og er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

***
Fyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er tileinkuð byltingu kvenna gegn áreitni og ofbeldi og þeim viðbrögðum, rannsóknum og aðgerðum sem af henni hafa hlotist og verður leitast við að rýna í ástæður, eðli og afleiðingar #MeToo-byltingarinnar frá margvíslegum sjónarhornum.

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.
Organizer: RIKK - Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum
Submitted by: Jafnrettisdagatal
This event for iCaliCal    Share
18.10.2018 12:00-13:00
Lecture
Reykjavík, Iceland